Viðskipti innlent

Spá verðbólgunni í átján ára hámark

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Við mjólkurinnkaupin Verðbólga á eftir að aukast fram á sumar áður en hún hjaðnar á ný, segir í spá greiningardeildar Landsbankans.
Við mjólkurinnkaupin Verðbólga á eftir að aukast fram á sumar áður en hún hjaðnar á ný, segir í spá greiningardeildar Landsbankans. Fréttablaðið/Valli
Verðbólga nær 18 ára hámarki í sumar gangi eftir ný spá greiningardeildar Landsbankans. Að því gefnu að veiking krónunnar gangi að hluta til baka er í spánni gert ráð fyrir að verðbólga fari hæst í ríflega 10 prósent í sumar. „Haldist krónan áfram veik má reikna með að verðbólgan fari í 13 prósent,“ segir þar jafnframt.

„Við gerum ráð fyrir að verðbólga frá upphafi til loka þessa árs verði 8,4 prósent,“ segir í spá bankans og gert ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist um mitt ár 2009.

„En í kjölfarið fer verðbólga þó tímabundið hækkandi á ný.“ Gert er ráð fyrir að vegna aukinnar verðbólgu verði samið um nokkra viðbótarhækkun launa við endurskoðun kjarasamninga í febrúar á næsta ári.

Snarpt fall krónunnar er sagt ráða mestu um vaxandi verðbólgu, en fréttir bendi til að gengislækkunin skili sér hratt í verð á innfluttum vörum. Á móti kemur að hægt hefur á fasteignamarkaði og telur greiningardeildin að á næstu mánuðum muni fasteignaverð draga úr hækkun verðbólguvísitölunnar í stað þess að ýta undir hana líkt og raunin hafi verið síðustu misseri.

Í fráviksspá bankans er ráð fyrir því gert að stjórnvöld grípi ekki tímanlega til viðeigandi aðgerða og krónan verði veik áfram. „Slík gengisþróun þýðir mun meiri verðbólgu, eða 13 prósent þegar mest lætur í sumar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×