Innlent

Félagsmálaráðherra ætlar að beita sér í málum Fjölsmiðjunnar

MYND/Pjetur

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segist munu gera það sem í hennar valdi stendur til þess að finna skjóta lausn á húsnæðismálum Fjölsmiðjunnar sem brátt verður húsnæðislaus. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Birkir vakti athygli á frétt Fréttablaðsins í dag þar sem fram kom að framtíð Fjölsmiðjunnar væri í hættu vegna þess að fjármuni vantaði til nýs húsnæðis. Fjölsmiðjan hefði verið stofnuð fyrir sjö árum og væri mikilvægt vinnumarkaðsúrræði fyrir fólk sem væri félagslega einangrað.

Sagði Birkir að 70 manns hefðu verið þar í vinnu að undanförnu og það væri alvarlegt ef framtíð Fjölsmiðjunnar væri í óvissu. Þar sem félagsmálaráðuneytið væri eitt af stofnendum Fjölsmiðjunnar spurði Birkir hvað liði lausn málsins. Sagði hann sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja koma að málinu en það stæði upp á ríkisstjórn að gefa fyrirheit um fjárstuðning. Þá benti hann enn fremur á að Fjölsmiðjan starfaði á undanþágu frá brunavörnum og við því þyrfti að bregðast.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sagðist ekki hafa séð umrædda frétt en tók undir með Birki hversu mikilvægt starf Fjölsmiðjunnar væri. Hún sagði sérstakri nefnd hafa verið falið að fjalla um húsnæðisvanda Fjölsmiðjunnar en henni væri ekki kunnugt um niðurstöðu hennar.

Sagðist Jóhanna myndu kynna sér stöðu málsins og sagði óviðunandi að húsnæðismál Fjölsmiðjunnar væru í óvissu. Hún benti á að þrjú ráðuneyti kæmu að málinu auk sveitarstjórna en hún myndi gera það sem í hennar valdi stæði til þess að finna skjóta lausn á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×