Innlent

RÚV sýknað af endurgreiðslukröfu - afnotagjald ekki skattur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ríkisútvarpið ohf. var sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær af kröfu greiðanda afnotagjalds útvarpsins sem krafðist endurgreiðslu gjaldsins á þeirri forsendu að það væri skattur en ekki þjónustugjald og bryti gjaldtakan því í bága við stjórnarskrá þar sem ráðherra hefði verið framselt vald til að ákvarða fjárhæð gjaldsins án nokkurra takmarkana.

Greiðandinn taldi lagaheimild til töku gjaldsins skorta og enn fremur heimild ráðherra til að hækka gjaldið án nokkurrar aðkomu löggjafans sem með því hefði framselt ráðherra ótakmarkað vald til ákvörðunar um fjárhæð gjaldsins. Þá taldi greiðandinn afnotagjaldið skatt með vísan til þess að það innheimtist hjá öllum eigendum viðtækja óháð því hvort þeir noti þau til að horfa eða hlýða á útsendingar Ríkisútvarpsins og gerði enn fremur þann fyrirvara að teldi Ríkisútvarpið gjaldið vera þjónustugjald væri grundvallarskilyrðinu um tengsl þjónustu og gjalda ekki fullnægt og innheimtan þar með ólögmæt.

Ríkisútvarpið krafðist sýknu í málinu með vísan til þess að lögbundið hlutverk þess væri að reka hljóð- og sjónvarpsþjónustu í almannaþágu. Hafi löggjafinn falið Ríkisútvarpinu ýmis verkefni og skyldur sem ekki hvíli almennt á útvarpsstöðvum og þannig á margan hátt greint það frá öðrum er stundi almennan útvarpsrekstur í skjóli ákvæða útvarpslaga.

Sérgreint gjald en ekki skattur

Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins til að rækja þetta lögbundna hlutverk séu samkvæmt ákvörðun löggjafans gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og öðrum miðlum, og aðrir tekjustofnar sem löggjafinn kunni að ákveða.

Áréttaði Ríkisútvarpið að afnotagjaldið væri sérgreint gjald eiganda viðtækis en ekki skattur. Fyrir afnotagjaldið fái eigandi viðtækis og aðrir á lögheimili hans sérgreint endurgjald í formi aðgangs að útvarpsdagskrá stefnda allan sólarhringinn, alla daga ársins, jafnframt því sem tryggt sé að dagskrá stefnda náist um allt landið og nálæg mið, bæði með stuttbylgju- og langbylgjusendingum. Ekkert af framangreindu sé einkenni skatts. Skattur sé greiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verði að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins, eftir almennum, efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera.

Ráðherra staðfestir einungis gjaldið

Einnig var bent á það af hálfu Ríkisútvarpsins að það væri viðurkennt sjónarmið í lögfræði að löggjafinn gæti veitt ráðherra afmarkaða heimild til að ákvarða og staðfesta upphæð gjalds sem byggi á lögákveðnum gjaldstofni og skuli menntamálaráðherra einungis staðfesta upphæð útvarpsgjaldsins að fengnum tillögum útvarpsstjóra. Sé álagning útvarpsgjalds byggð á raunverulegum kostnaði Ríkisútvarpsins af rekstri útvarpsþjónustu í almannaþágu sem sé í samræmi við þá grundvallarreglu við gjaldaálagningu að gjöld skuli standa straum af rekstrarkostnaði.

Meðal markmiða löggjafans með fyrirkomulagi afnotagjaldsins sé að tryggja og verja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og búa svo um hnútana að ekki skapist sú freisting að þagga niður gagnrýnisrödd með fjársvelti.

Starfsemi Ríkisútvarpsins sé hluti af almannavarnakerfi landsmanna og sé dreifikerfi og dagskrá öryggisleið til almennings ef vá beri að höndum. Þá þjónustu geti allir þurft að nýta sér sem eigi viðtæki. Útvarpsgjald sé lagt á alla þá sem séu skráðir eigendur viðtækja. Með slíku gjaldi sé gætt jafnræðis og samræmis milli allra þeirra sem geti notað þjónustu sem felist í útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þá sé það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði að fyrir gjald, sem lagt sé á með lögum, verði að koma tiltekin og sérgreind þjónusta sem gjaldandi raunverulega neyti.

Ekki of víðtækt framsal löggjafarvalds

Héraðsdómari tók þá afstöðu að gjaldtaka Ríkisútvarpsins væri að vísu ekki framkvæmd á grundvelli raunverulegrar notkunar eða veittrar þjónustu. Hins vegar hefði hún verið bundin við eigendur viðtækja. Eins lægi fyrir að afnotagjöldunum væri ekki ætlað neitt annað hlutverk en að standa að hluta straum af kostnaði við rekstur Ríkisútvarpsins. Að þessu virtu telji dómari slík tengsl á milli skyldu til að greiða afnotagjaldið og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem Ríkisútvarpið veiti hverjum gjaldanda að afnotagjöldin teljist þjónustugjöld en ekki skattar.

Þá verði ekki fallist á það með greiðandanum sem málið höfðaði að það fyrirkomulag að ráðherra staðfesti útvarpsgjald, að fengnum tillögum útvarpsstjóra, teldist of víðtækt framsal löggjafarvalds sem bryti í bága við stjórnarskrá. Samkvæmt þessu sýknaði dómari Ríkisútvarpið af kröfu greiðandans. Málskostnaður var felldur niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×