Erlent

Kosið í Zimbabve í dag - Mugabe einn í framboði

Robert Mugabe, núverandi og væntanlega tilvonandi forseti Zimbabve.
Robert Mugabe, núverandi og væntanlega tilvonandi forseti Zimbabve. AP

Önnur umferð í forsetakosningunum í Zimbabve fer fram í dag. Róbert Mugabe er einn í framboði. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar og keppinautur Mugave um embættið, Morgan Tsvangirai, dró sig í hlé á dögunum vegna ofbeldisöldunnar sem verið hefur í landinu undanfarið gegn andstæðingum stjórnarinnar. Hann hefur kvatt kjósendur sína til að taka þátt í kosningunum til þess að koma í veg fyrir frekari ofbeldisverk af hálfu stuðningsmanna Mugabes.

Leiðtogar fjölmargra Afríkuríkja hafa hvatt Mugabe til að fresta kosningunum, en án árangurs en Mugabe segir að hann og hans menn muni halda áfram að stjórna Zimbabve eins og þeir telja að því eigi að vera stjórnað.

Fregnir frá landinu herma að nú seljist flokksskírteini Zanu-PF, en það er flokkur Mugabes, á háu verði á svörtum markaði, því skírteinin eru sögð veita mönnum skjól frá frekari árásum. Mugabe tapaði í fyrri hluta kosninganna fyrir Tsvangirai í mars, en munurinn á frambjóðendunum var ekki nægilega mikill til þess að geta talist afgerandi. Stjórnarandstaðan segir að síðan þá hafi um 90 manns úr þeirra röðum verið drepnir og 200 þúsund gert að yfirgefa heimili sín.

Utanríkisráðherrar átta helstu iðnríkja heims, G8 hópsins svokallaða, lýstu því yfir í morgun að þeir ætli ekki að viðurkenna útkomu kosninganna. Leiðtogarnir segja að fyrri umferð kosninganna, sem fram fór í mars eigi að gilda, en þar fór Tsvangirai með sigur af hólmi. Ennfremur lýstu leiðtogarnir, sem nú hittast á fundi í Japan, því yfir að ríkin muni ekki viðurkenna stjórnvöld í Zimbabve sem neiti að taka mið af vilja þegna sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×