Erlent

Skattpíndir Svíar

Porsche er bráðnauðsynlegur fararskjóti fyrir suma.
Porsche er bráðnauðsynlegur fararskjóti fyrir suma.

Svíar halda því fram að þeir borgi hæstu skatta innan Evrópusambandsins og blaðamaður Aftonbladet tekur saman nokkur dæmi um hvað sænskir skattborgarar taka til bragðs þegar kemur að því að öðlast undanþágur frá löngum fingrum ríkissjóðs.

Segir þar meðal annars frá manni sem taldi rétt að glæný Porsche 911-bifreið hans kæmi til skattafrádráttar enda hafi hann bráðnauðsynlega þurft hennar með við vinnu sína. Annar krafðist þess að kostnaður við sálfræðiaðstoð sem yfirmaður hans neyddi hann til að þiggja yrði dreginn frá sköttum hans. Sá fékk reyndar sínu framgengt eftir nokkrar bréfaskriftir.

Að lokum ku það vera daglegt brauð að fyrirsætur fari fram á að brjóstaaðgerðir þeirra og snyrtivörur sé frádráttarbært. Talsmaður sænska skattsins viðurkennir reyndar að þau tilvik geti komið upp en það sé eingöngu að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×