Erlent

Rannsókn á nektarmyndum í Christiansborg hætt

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur endanlega gefist upp á að finna hver stóð að baki töku nokkurra nektarmynda í móttökusölum dönsku konungshallarinnar.

Myndirnar voru teknar í fyrra að því talið er og sýna nakta konu í ýmsum eggjandi stellingum í Christiansborg þar á meðal í sjálfu hásæti Margrétar Þórhildar Danadrottningar.

Það var tímaritið Se og Hör sem birti myndirnar eftir að þær voru settar á netið og vakti sú myndbirting mikla athygli í Danmörku og víða um heiminn.

Lögreglan hafði einn grunaðan í málinu en ekki nægar sannanir í höndunum til að fá hann sakfelldan. Og ekki hefur tekist að bera almennlega kennsl á hina nöktu fyrirsætu þar sem andlit hennar er hulið á myndunum.

Það þykir mikil gáta í Danmörku hver tilurð myndanna er. Öryggisgæsla er gífurlega í Christiansborg og næsta nágrenni og því telur lögreglan augljóst að fyrirsætan og sá sem tók myndirnar hafi notið aðstoðar kunnugra við að komast inn í höllina. Þá vill lögreglan ekki heldur útiloka að um falsanir sé að ræða en sérfræðingar sem skoðað hafa myndirnar telja þær ekta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×