Erlent

Kanna hvort eitrað hafi verið fyrir lögmanni Khodorkovskys

Míkhaíl Khodorkovsky situr í fangelsi fyrir skattsvik en hann hefur alla tíð haldið því fram að ákærur á hendur honum séu runnar undan rifjum stjórnvalda í Kreml.
Míkhaíl Khodorkovsky situr í fangelsi fyrir skattsvik en hann hefur alla tíð haldið því fram að ákærur á hendur honum séu runnar undan rifjum stjórnvalda í Kreml.
Lögregla í Frakklandi hefur hafið rannsókn á því hvort eitrað hafi verið fyrir þekktum rússneskum lögfræðingi í Strassborg á mánudag.

 

 

Karina Moskalenko veiktist eftir að hún fann efni sem líkist kvikasilfri í bíl sínum og þá þurftu börn hennar einnig að leita læknis vegna hausverkja og ógleði eftir að hafa verið í bílnum. Ekki mun hafa verið nóg af efninu í bílnum til þess að stofna lífi þeirra í hættu en rannsókn málsins er engu að síður haldið áfram.

 

 

Moskalenko er þekkt í heimalandi sínu fyrir að hafa unnið fyrir andstæðinga stjórnvalda í Kreml, þar á meðal olíujöfurinn Míkhaíl Khodorkovsky og fjölskyldu blaðakonunnar fyrrverandi, Önnu Poliltkvoskayu, sem myrt var í Moskvu. Moskalenko átti einmitt að vera viðstödd yfirheyrslur yfir þremur mönnum sem grunaðir eru um að hafa myrt Politkovskayu í Moskvu á morgun en kemst ekki vegna veikindanna. Einn af samstarfsmönnum Moskalenko telur að hér hafi verið á ferðinni tilraun til þess að fæla hana frá málinu.

Mál Moskalenko minnir um margt á mál Alexanders Litvinenkos, fyrrverandi njósnara í Rússlandi, sem lést af völdum eitrunar í Bretlandi. Bresk stjórnvöld grunar annan fyrrverandi njósnara, Andrei Lugovoi, um morðið en hann hefur neitað aðild að því og þá hafa rússnesk stjórnvöld neitað að framselja hann.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×