Innlent

Hugnast ekki fækkun bæjarfulltrúa

Oddvitar meirihlutaflokkanna í Árborg. Ragnheiður Hergeirsdóttir Samfylkingu, Þorvaldur Guðmundsson Framsóknarflokki og Jón Hjartarson VG.
Oddvitar meirihlutaflokkanna í Árborg. Ragnheiður Hergeirsdóttir Samfylkingu, Þorvaldur Guðmundsson Framsóknarflokki og Jón Hjartarson VG. Mynd/Egill Bjarnason

Þorvaldur Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, gefur ekki mikið fyrir tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarfélaginu sem lögðu til í gær að bæjarfulltrúum verði fækkað úr níu í sjö og að bæjarstjóri þiggi ekki laun sem bæði bæjarstjóri og bæjarfulltrúi. Þorvaldur telur meiri þörf vera á að auka lýðræði heldur en að draga úr því.

Stíll sjálfstæðismanna

,,Við höfum verið að vinna sameiginlega að fjárhagáætluninni og þess vegna kom þetta okkur svolítið á óvart. Heppilegra hefði verið að ræða okkur saman á lausn og koma sameiginlega með tillögu eins og önnur sveitarfélög eru að gera, en þetta er þeirra stíll og ekkert við því að segja," segir Guðmudur sem vonast til þess að samvinnu meiri- og minnihlutans við gerð fjárhagsáætlunarinnar verði framhaldið.

,,Það er í góðu lagi að velta fækkun bæjarfulltrúa fyrir sér en þetta er ekki eitthvað sem við gerum núna." Ræða þurfi málið fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Þorvaldur telur meiri þörf vera á að auka lýðræði í bæjarfélaginu heldur en að draga úr því. Hann telur að hátt í fjórar milljónir króna myndu sparast yrði bæjarfulltrúum fækkað um tvo.

Laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa lækka

Þorvaldur segir að laun Ragnheiðar Hergeirsdóttur bæjarstjóra líkt og annarra bæjarfulltrúa verði lækkuð. Fjárhagsáætlun Árborgar var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær og þar er lagt til að laun bæjarfulltrúa og bæjarstjóra verði lækkuð um 15%.

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Árborgar verður 14. janúar.

Samfylkingin, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir mynda meirihluta í bæjarfélaginu.




Tengdar fréttir

Vilja fækka bæjarfulltrúum í Árborg

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Árborg lögðu til í bæjarstjórn í gær að bæjarfulltrúum yrði fækkað úr níu í sjö. Slíkt er heimilt samkvæmt lögum. Einnig lögðu þeir til að bæjarstjóri þiggi ekki laun sem bæði bæjarstjóri og bæjarfulltrúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×