Lífið

Hart í bak sett upp á 10 tímum

Breki Logason skrifar
Vignir segir verkið eitthvað tengt sjómönnum.
Vignir segir verkið eitthvað tengt sjómönnum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Leikfélagið, Vér morðingjar, ætlar að framkvæma einstakan leikhúsgjörning á sunnudaginn með því að setja upp verkið Hart í bak eftir Jökul Jakobsson á 10 klukkustundum. Vignir Rafn Valþórsson leikari segir fyrsta samlestur hefjast klukkan ellefu á sunnudagsmorgun og stefnt er á frumsýningu um kvöldið.

„Við reyndar byrjum á því að draga um hlutverk. Síðan lesum við yfir verkið og byrjum síðan að æfa," segir Vignir en á staðnum verður hrúga af búningum og einhverjar spýtur sem nýta má í leikmynd.

Nýtt æfingarhúsnæði leikhópsins við Vatnsstíg verður leiksvið þessa fornfræga verks og er öllum velkomið að kíkja inn og sjá hvernig gengur.

„Við höfum auðvitað lesið eitthvað um verkið í leiklistarsögu og svona og vitum að það fjallar að hluta til um sjómenn, en raunverulega vitum við ekki neitt," segir Vignir og í ljósi þess verða nokkur stígvél á svæðinu.

Í verkinu eru 6 stráka hlutverk og 4 kvennhlutverk sem eru jafnmörg hlutverk og meðlimir leikhópsins. „Við eigum samt eftir að semja reglurnar þannig að það gæti vel verið að ég þyrfti að leika konu," segir Vignir en frítt verður inn á sýninguna.

Hugmyndin að þessum gjörning kviknaði í tengslum við Lókal leiklistarhátíðina sem nú stendur yfir í Reykjavík. Æfingarhúsnæði hópsins er í gamla Billjardsalnum við Vitastíg. „Það verður hægt að kaupa kaffi og pizzur og svona, og um að gera að kíkja á okkur."

Leikendur eru Vignir Rafn Valþórsson, Hannes Óli Ágústsson, Dóra Jóhannsdóttir, Karl Ágúst Þorbergsson, Anna Svava Knútsdóttir, Símon Birgisson, Bjartur Guðmundsson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Hilmir Jensson og Lára Jóhanna Jónsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.