Innlent

Háseti fær fjórar millur frá ríkinu

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun var íslenska ríkinu gert skylt að greiða fyrrverandi háseta um borð í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni RE-200, tæpa fjóra og hálfa milljóna króna. Hásetinn féll um grandaravíra sem lágu ófrágengnir á þilfari skipsins og bar fyrir sig höndina í fallinu og meiddist á úlnlið. Talið var að hann hefði handleggsbrotnað en hann komst ekki undir læknishendur fyrr en 11 dögum síðar.

Hásetinn gekkst undir tvær aðgerðir í kjölfar slyssins og var frá vinnu í u.þ.b níu mánuði og aftur síðan í u.þ.b sex mánuði en mun síðan hafa unnið sjómannsstörf.

Tveir sérfræðingar í handarskurðlækningum skiluðu matsgerð sem var lögð fyrir dóminn. Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu að hásetinn hefði orðið fyrir tímabundnu tjóni á þessum tveimur tímabilum og sögðu hásetann búa við 15% hefðbundna læknisfræðilega örorku.

Íslenska ríkið hafnaði bótakröfu hásetans og var vísað til þess að slysið hefði verið „óhappatilviljun" og yrði hvorki rakið til vanbúnaðar né saknæmra mistaka annarra skipverja á Árna Friðrikssyni.

Héraðsdómur komst hins vegar að því að ríkið væri skaðabótaskylt og bæri að greiða hásetanum tæpa fjóra og hálfa milljón vegna slyssins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×