Innlent

Björk: Ekki bara hippar móti álverum

SB skrifar
Björk Guðmundsdóttir. Hvetur Sjálfstæðismenn Íslands að taka sér John McCain til fyrirmyndar.
Björk Guðmundsdóttir. Hvetur Sjálfstæðismenn Íslands að taka sér John McCain til fyrirmyndar.

Björk Guðmundsdóttir segir andstæðinga álvera vera meirihluta þjóðarinnar en ekki bara nokkra hippa. Hún segir gagnrýni Ernu Indriðadóttur, upplýsingafulltrúa Alcoa, sem sagði Björk einungis hafa lesið Draumalandið, ósanngjarna.

Þetta segir Björk í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir Ísland hafa misst af iðnbyltingunni en engin ástæða sé til að iðnvæðast nú: „Við viljum halda forskotinu, vera fremst í grænu byltingunni en ekki land sem lærði ekkert af mistökum hinna."

Björk segist hafa sjálfstæðar skoðanir á álversmálum. „Mér finnst líka ósanngjarnt af Ernu að gefa í skyn að ég hafi bara lesið bók Andra, Draumalandið, og þetta sé bara misskilningur í okkur tveimur að álver séu ekki góð hugmynd fyrir ísland. Ég vil benda Ernu á að ég hef mjög sjálfstæðar skoðanir og svo hefur einnig öll þjóðin.“

Björk ræðir um framtíðina og hrósar sérstaklega frambjóðanda Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum fyrir skýra framtíðarsýn en hann bauð í vikunni þeim sem hannar besta rafhlaðna bílinn 300 milljónir dollara í verðlaun ef hann verður forseti. „Hann áttar sig á að hann verður bara kosinn ef hann hugsar til vistvænnar framtíðar, en situr ekki fastur í olíuöldinni/iðnbyltingunni.“

Að lokum hvetur hún sjálfstæðismenn til að taka sér John McCain til fyrirmyndar: „Sjálfstæðismenn Íslands: þið ættuð að taka hann ykkur til fyrirmyndar. Það verður að skipta um gír og fara í grænu áttina.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×