Innlent

Leitað vegna skemmdarverka á fallturni

Lögregla leitar þriggja karlmanna um tvítugt sem sköpuðu stórhættu þegar þeir áttu við búnað fallturnsins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Árvekni starfsmanns kom í veg fyrir slys.

Frá þessu er greint í 24 stundum í dag. Þann 18. júní var brotist inn í skúr þar sem búnaður vegna fallturnsins er geymdur. Þar hafði rafmagnstafla verið skemmd og búið var að sprauta efni úr slökkvitæki ofan í olíutankinn sem fallturninn gengur fyrir. Til að byrja með hafði efnið ekki áhrif á gang turnsins en þegar líta tók á daginn tók athugull starfsmaður eftir því að ekki var allt með felldu.

Næstu nótt á eftir gekk næturvörður fram á þrjá menn í kringum tvítugt sem voru að reyna að brjótast inn í sama skúr. Að öllum líkindum er um sömu skemmdarvarga að ræða því næturvörðurinn heyrði þá segja að búið væri að hreinsa olíutankinn. Mennirnir flúðu af vettvangi þegar þeir urðu varir við næturvörðinn. Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragðarsins, segir að líf fólks hafi ekki verið í hættu.

Tvo daga tók að laga tækið sem er komið í fullan gang á ný. Kostnaður vegna skemmdarverkanna er um ein milljón króna. Málið er í rannsókn hjá lögreglu en enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins. Næturvörðurinn auk nokkurra starfsmanna garðsins þekkja þó mennina vel í sjón og geta því gefið lögreglu greinargóða lýsingu á þeim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×