Innlent

Starfsemi Landspítala skerðist strax ef til yfirvinnubanns kemur

Kjarafundur milli hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins bar engan árangur í gær. Náist ekki samningar tekur yfirvinnubann gildi á spítölum 10.júlí. Komi til þess skerðist starfsemi spítalanna strax.

Samninganefnd ríkisins bauð hjúkrunarfræðingum tuttugu þúsund og þrjú hundruð króna hækkun við öll grunnlaun í launatöflunni á fundi hjá sáttasemjara í gær. Hjúkrunarfræðingar höfnuðu því alfarið og náðist engin niðurstaða í málið. Cecilia Björgvinsdóttir, verkefnastjóri kjara- og réttindamála hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að félagsmenn hefðu aldrei samþykkt slík laun og því væri tilgangslaust að skrifa undir tilboð samninganefndar.

Hjúkrunarfræðingar hafa boðað til yfirvinnubanns á spítölum eftir 10 daga náist ekki samningar um launakjör sem þýðir að hjúkrunarfræðinga vinna aðeins það starfshlutfall sem þeir eru ráðnir í. Rúmlega tvö þúsund hjúkrunarfræðingar eru í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og er þriðjungur heildarlauna hjúkrunarfræðinga tilkominn vegna vaktaálags og yfirvinnu.

Cecilia segir nær alla hjúkrunarfræðinga vinna yfirvinnu og slíkt bann myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi spítalanna á fyrsta klukkutímanum. Næsti samningafundur hjá ríkisáttasemjara verður á mánudaginn eftir helgi og segist Cecilia vongóð um að viðræður þokist áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×