Innlent

Stjórnvöld svara ESA innan mánaðar

MYND/Pjetur
Íslensk stjórnvöld munu gera Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grein fyrir afstöðu sinni til nýrrar niðurstöðu stofnunarinnar um Íbúðalánasjóð innan mánaðar. Þetta kemur fram á vef félags- og tryggingmálaráðuneytisins.

ESA komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu nýverið að núgildandi ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs væri ekki í samræmi við ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Ríkisaðstoð vegna félagslegra lána til íbúðakaupa væri ekki nægilega vel skilgreind og afmörkuð í núgildandi löggjöf. Félagsmálaráðuneytið bendir á að það sé ekki í verkahring ESA að koma fram með tillögur um nýtt fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs en það sé hlutverk íslenskra stjórnvalda að setja nauðsynleg skilyrði í lög vegna félagslegra íbúðalána og sjá til þess að lán á venjulegum markaðsforsendum séu án ríkisaðstoðar.

Ráðuneytið bendir á að ESA hafi hafið nýja rannsókn sem byggist á því að samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir sé Íbúðalánasjóður undanþeginn greiðslu ríkisábyrgðargjalds. „Eru að mati ESA taldar líkur á að með setningu laganna hafi Íbúðalánasjóði verið veitt ný ríkisaðstoð sem beri að endurkrefja sjóðinn um. Er þeim sem hagsmuna kunna að hafa að gæta gefinn kostur á að senda stofnuninni athugasemdir af þessu tilefni. Verði það niðurstaða ESA að lokinni þessari rannsókn að um ólögmæta ríkisaðstoð hafi verið að ræða getur það leitt til þess að stjórnvöld þurfi að endurkrefja Íbúðalánasjóð um þá fjárhæð sem þessari ríkisaðstoð nemur frá 1998," segir enn fremur á vef ráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×