Innlent

Íhugaði ekki að hætta

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, íhugaði ekki að segja af sér sem borgarfulltrúi og hætta afskiptum af stjórnmálum þegar hvað mest gekk á borgarstjórn Reykjavíkur fyrr á árinu. ,,Mér leið ekki þannig persónulega. Ég hef mikla ástríðu fyrir stjórnmálum," sagði Hanna Birna sem var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi fyrr í dag.

Tíð meirihlutaskipti

Undanfarið ár hafa átök í tengslum við borgarmálinn verið afar hörð. Bæði á milli flokka og innan flokka, sér í lagi Sjálfstæðisflokksins.

Upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks slitnaði í október 2007. Við tók Tjarnarkvartettinn svokallaði og fór hann með meirihlutvald allt þar til Sjálfstæðisflokkurinn myndaði nýjan meirihluta með Ólafi F. Magnússyni í janúar fyrr á þessu ári. Flokkurinn sleit því samstarfi og myndaði meirihluta á nýjan leik með Framsóknarflokknum í ágúst og tók Hanna Birna við sem borgarstjóri.

Persónuleg átök erfið

Hanna Birna sagði að persónuleg átök á milli einstaklinga hafi verið einna erfiðust á tímabilinu. Að hennar mati hefur tíminn frá meirihlutaskiptunum í október 2007 verið lærdómsríkur. Auk þess hafi niðurstaðan verið farsæl. ,,Ég held að það hafi verið lærdómsferli bæði fyrir okkur sem voru að vasast í þessu og ekki síður pólitíkina."

Meirihlutinn og minnihlutinn starfa saman

Meiri ró virðist nú vera yfir borgarmálunum. Hanna Birna sagði að það væri fullkomið ofmat að segja að það væri henni einni að þakka. Í borgarstjórn starfi 15 hæfir einstaklingar drifnir áfram af hugsjón og vilja til að gera vel.

Hanna Birna sagði að vinnulagi hafi verið breitt og minnihlutinn hafi verið reiðbúin að taka þátt í þeirri vinnu. ,,Síðan höfum við setið saman að öllum verkefnum og reynt að leysa þau sameiginlega. Tekið mark og mið á skoðunum hvers annars og ferðast þannig í gegnum þetta." Það hefur skilað sér að skilningur og traust er meira, umræðan er öðruvísi og árangurinn er betri, að mati Hönnu Birnu.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×