Handbolti

Ævintýralegur sigur hjá Dönum

AFP

Evrópumeistarar Dana hafa ekki sagt sitt síðasta orð í handboltakeppninni á ÓL í Peking. Liðið vann ævintýralegan sigur á Rússum í dag 25-24 þar sem úrslitin réðust í aukakasti þegar leiktíminn var liðinn.

Tap hjá danska liðinu hefði komið Dönum í afar slæma stöðu, en þeir voru undir lengst af í síðari hálfleiknum. Danska liðið náði að jafna leikinn undir lokin með því að taka markvörð sinn af velli og blása til sóknar og voru Rússarnir nálægt því að tryggja sér sigurinn í kjölfarið.

Skot Rússa fór þó yfir og danska liðið fékk aukakast þegar leiktíminn var runninn út. Þá gerði Mikkel Hansen sér lítið fyrir og skoraði beint úr aukakastinu með þrumuskoti í stöng og inn efst í markhornið og tryggði Dönum dramatískan sigur.

Staðan í B-riðlinum er því þannig að Íslendingar, Suður-Kóreumenn og Þjóðverjar hafa 4 stig, Danir 3 stig, Rússar 2 og Egyptar 1 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×