Innlent

Páll Hreinsson skipaður í rannsóknarnefnd um bankahrunið

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari.
Páll Hreinsson, hæstaréttardómari.

Páll Hreinsson hæstaréttardómari hefur verið skipaður í rannsóknarnefnd um bankahrunið og verður hann formaður nefndarinnar. Alþingi skipar í nefndina og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur þegar verið skipaður. Í lögum er greint á um að nefndina skipi umboðsmaður Alþingis, hæstaréttardómari og háskólamenntaður sérfræðingur.

Að sögn Þuríðar Backman, annars varaforseta Alþingis, hefur þegar verið gengið frá skipun þeirra Páls og Tryggva en verið sé að leita að sérfræðingnum. Þó sé ákveðið að það verði kona og segir Þuríður að nokkrar mætar konur hafi verið nefndar í því samhengi. Forsætisnefnd, sem Þuríður á sæti í, skipar samkvæmt lögunum hæstaréttardómarann.

Þuríður sagði þó möguleika á því að þegar sé búið að manna nefndina þar sem hún hafi verið fjarverandi frá þingi í gær og á laugardag. Hún hafi hins vegar ekki frétt af því hafi svo verið. Ekki hefur náðst í Sturlu Böðvarsson, forseta Alþingis, í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×