Lífið

Smokkasala dregst saman í kreppunni

Gunnlaugur Grétarsson segir það áhyggjuefni að smokkasalan sé að dragast saman. Það geti vel verið að þeir séu dýrir en að missa heilsuna sé líka dýrt.
fréttablaðið/anton
Gunnlaugur Grétarsson segir það áhyggjuefni að smokkasalan sé að dragast saman. Það geti vel verið að þeir séu dýrir en að missa heilsuna sé líka dýrt. fréttablaðið/anton

„Í fyrsta skipti síðan við tókum við Durex-smokkunum fyrir fjórum árum hefur salan dregist saman. Þetta er í kringum 25 prósenta samdráttur," segir Ásgeir Sveinsson, deildarstjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. sem flytur inn Durex-smokka. Í erlendum vefmiðlum hefur mikið verið gert úr því að smokkar séu einhver vinsælasti varningurinn í verslunum um þessar mundir enda sé kynlíf fremur ódýr afþreying í því fjármálahruni sem nú ríkir á Vesturlöndum.

Ásgeir staðfestir að sölutölurnar stangist á við það sem er í gangi í öðrum Evrópulöndum. Þá hafi verð á smokkum hækkað um 45 prósent á einu ári og má vel vera að það spili inn í sífellt færri smokkakaup.

Gunnlaugur Grétarsson, formaður HIV-samtakanna á Íslandi, segir að smokkar séu vissulega áberandi í mörgum búðum og það sé vel. „Mér finnst þeir hins vegar persónulega alltof dýrir. Að ég tali nú ekki um fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í kynlífinu," segir Gunnlaugur og viðurkennir að þetta sé mikið áhyggjuefni.

„Ég vona bara að fólk hætti ekki að kaupa smokka, kannski finnst fólki smokkar of dýrir en það er líka dýrt að missa heilsuna." Gunnlaugur segist ekki hafa þá tilfinningu að skyndikynni séu á undanhaldi. „Nei, mín tilfinning er frekar sú að fólk sé kærulausara."

Verðkönnun Fréttablaðsins leiddi í ljós að verð á Durex-smokkum hefur hækkað ansi mikið. Tólf smokkar af Extra-safe Durex-smokkum kosta 1.759 í Lyfju og 1.990 í verslunum 10/11. Reyndar má benda áhugasömum á fremur ódýra smokka á vefsíðunni smokkur.is en þar má meðal annars kaupa Atlas-smokka, tólf í pakka, á 390 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.