Erlent

Danskir ráðherrar sofandi á fundum með drottningunni

Finnst þeim Margrét Danadrottning svona leiðinleg?
Finnst þeim Margrét Danadrottning svona leiðinleg? MYND/AFP

Það er ekki eintóm sæla að vera ráðherra í Danmörku ef marka má nýja bók Flemmings Hansen, fyrrverandi samgönguráðherra. Þar ljóstrar hann því upp að fjölda ráðherra leiðist svo á ríkisráðsfundum með drottningunni að þeir fá sér kríu.

Í grein á vef Berlingske Tidende er vitnað til bókarinnar og sagt að atvinnumálaráðherrann Claus Hjort Fredriksen sé manna verstur.

Ríkisráðsfundir í Danmörku eru með sama sniði og á Íslandi, en þar eru nýsamþykkt lög á danska þinginu borin undir drottninguna til staðfestingar. Ráðherrarnir koma einn af öðrum og lesa upp lögin og Margrét Danadrottning endurtekur orð þeirra. Ef hún skilur ekki tiltekna hluti eru þeir útskýrðir fyrir henni.

Þannig segir Berlingske að ríkisráðsfundirnir geti staðið í allt að einn og hálfan tíma og það reynist sumum ráðherranna hreinlega um megn. Eftir að hafa fengið undirskrift þeirra laga sem þeir leggja fram kemur það sem sagt fyrir að þeim rennur í brjóst. Það fylgir þó sögunni að forsætisráðherra Anders Fogh Rasmussen geti ekki leyft sér þennan munað því hann situr næst drottningunni.

Einn þingmanna De Radekale á danska þinginu, fyrrverandi utanríkisráðherrann Nils Helveg Petersen, hefur lagt fram lausn á málinu. Að leggja niður ríkisráðið þar sem það sé sóun á tíma. Það vill Margrét Danadrottning hins vegar ekki og bendir á að fundir ráðsins séu einu tengsl konungsfjölskyldunnar við stjórnmálalífið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×