Innlent

Vöruskiptahalli tvöfalt meiri á fyrsta ársfjórðungi í ár en í fyrra

Aukning hefur orðið á útflutningi á áli.
Aukning hefur orðið á útflutningi á áli. MYND/GVA

Vöruskiptahallinn á fyrsta ársfjórðungi reyndist nærri 25 milljarðar króna samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman. Fluttar voru út vörur fyrir um 78 milljarða króna fyrstu þrjá mánuði ársins en inn fyrir tæpa 103. Vöruskiptin voru óhagstæð um 12,3 milljarða á sama tíma í fyrra og vöruskiptahallinn því um helmingi minni þá en í ár. 

Þegar aðeins er litið til mars í ár reyndist vöruskiptahallinn tæpir þrír milljarðar sem þýðir að eitthvað er að draga úr hallanum miðað við janúar og febrúar. Til samanburðar var vöruskiptahallinn fjórir milljarðar í mars í fyrra.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruútflutnings 10,1 milljarði eða 11,4 prósentum minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 41 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra um 15 prósentum minna en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru nær helmingur alls útflutnings og var verðmæti þeirra nærri 12 prósentum meira en árið áður. Mestur samdráttur varð í útflutningi skipa og flugvéla og sjávarafurða, aðallega frystra flaka en á móti kom aukning í útflutningi á áli.

Þegar litið er til innflutnings fyrstu þrjá mánuði ársins var verðmæti hans 2,4 milljörðum eða 2,4 prósentum meira en á sama tíma í fyrra. Mest aukning varð í innflutningi á fólksbílum og hrá- og rekstrarvörum en á móti kom samdráttur í innflutningi á flugvélum og fjárfestingavöru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×