Innlent

Neitar sök í manndrápsmáli og telur sig vita hver var að verki

Karlmaður á fertugsaldri, sem ákærður er fyrir manndráp í fjölbýlishúsi við Hringbraut í október í fyrra, neitar sök og telur sig vita hver hafi verið á ferðinni umræddan dag.

Þetta kom fram við aðalmeðferð í málinu sem hófst í morgun. Skýrslur hafa verið teknar af hinum ákærða og lögreglumönnum sem komu fyrstir á vettvang en aðalmeðferð stendur yfir í allan dag. Manninum er gefið að sök að hafa 7. október í fyrra veitt nágranna sínum þrjú högg í höfuðið með slökkvitæki. Við það brotnaði höfuðkúpa fórnarlambsins á þremur stöðum þannig að það blæddi inn á hana og maðurinn lést í kjölfarið.

Hinn ákærði sagði að ekkert ósætti hefði verið á milli sín og fórnarlambsins en þeir hefðu verið að drekka saman kvöldið og morguninn áður en maðurinn lést. Hann segir fórnarlambið hafa sofnað inni í íbúð sinni um hádegið og þá hafi hann yfirgefið íbúðina. Hann hafi síðan farið í íbúð hins látna, stuttu seinna, eða um hádegi og komið að honum með kodda fyrir andliti. Hann hafi tekið koddann frá og blóðið þá fossað á móti honum. Hinn ákærði telur sig vita hver hafi drepið manninn og telur líklegt að hann hafa komið inn um svaladyr á íbúðinni. Lögregla segir hins vegar að útilokað sé að nokkur hafi komið inn um svaladyrnar.

Enn fremur kom fram við aðalmeðferðina að blóðug föt hefðu fundist inni hjá hinum ákærða en hann skýrði það á þá leið að hann hlyti að hafa þurrkað sér í þau eftir að hafa fundið nágranna sinn alblóðugan. Þá fundust áverkar á höndum hins ákærða sem benda til aðildar hans að málinu. Sem fyrr segir er hann grunaður um að hafa slegið fórnarlambið með duftslökkvitæki en duft fannst í íbúð hins látna.

Rannsóknarlögreglumaður sem bar vitni sagði að öryggismyndavélar sýndu að svo virtist sem mennirnir hefðu verið að rífast áður en annar þeirra hefði fundist látinn. Nágrannar báru enn fremur vitni og sögðu að engin merki hefðu verið um mannaferðir í húsinu þann daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×