Innlent

1. maí og uppstigningardagur saman næst árið 2160

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
1. maí 1964. Sumir þeirra sem þarna eru upplifðu án efa 1. maí og uppstigningardag saman árið 1913.
1. maí 1964. Sumir þeirra sem þarna eru upplifðu án efa 1. maí og uppstigningardag saman árið 1913.

Það er ekki á hverju ári sem 1. maí og uppstigningardagur eru einn og sami dagurinn. Svo er þó nú.

Töluverðar líkur eru á því að enginn sem les þessa frétt hafi nokkru sinni lifað það áður að þessir tveir hátíðisdagar falli á sama daginn og öruggt er að enginn sem les hana muni nokkurn tímann upplifa slíkt aftur. Nema þá í öðru lífi. Næst mun slíkur samruni eiga sér stað árið 2160 en síðast varð hann árið 1913. Það er því til mikils að vinna að njóta dagsins þótt margir sýti það án efa að þarna fer einn frídagur í vaskinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Almanaki Háskóla Íslands gerist þetta ef páskadag ber upp á 23. mars en það er afar sjaldgæft og gerist að meðaltali einu sinni á 105 árum. Bilið er þó afar misjafnt, 1. maí og uppstigningardagur geta fallið saman með 11 ára millibili en lengst getur bilið orðið 1.363 ár. Má því segja að töluverð forréttindi séu að vera uppi á uppstigningardag, 1. maí 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×