Innlent

Neyðaráætlun lögð fram síðdegis

Fjörutíu geislafræðingar og tæplega hundrað hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum ætla að standa við uppsagnir sínar að öllu óbreyttu og hætta á miðnætti í kvöld. Neyðaráætlun Landspítalans verður ekki lögð fram fyrr en síðdegis þegar forsvarsmenn spítalans vita heildarfjölda uppsagna.

Fundir hafa staðið síðustu daga um breytt vaktafyrirkomulag á Landspítalanum og deiluna um það. Heilbrigðisráðherra fundaði með forsvarsmönnum spítalans, landlækni og fleirum í gærkvöld. Engir samningar hafa náðst þrátt fyrir að spítalinn hafi frestað breytingum á vaktafyrirkomulaginu til 1.október.

96 skurð- og hjúkrunarfræðingar ætla að standa við uppsagnir sínar og hætta á miðnætti í kvöld. Bryndís Þorvaldsdóttir, talsmaður hjúkrunarfræðinga í Fossvogi, segir að þeir eigi ekki annarra kosta völ. Spítalinn sé einungis að slá vandanum á frest til 1. október. Það henti öllum betur að hætta nú þegar sumarfrí séu fram undan en í haust.

Þá ælta fjörutíu geislafræðingar einnig að hætta á miðnætti. Á fimmta tug geislafræðinga starfar á Landspítalanum og verða því um 10 eftir þegar hinir hætta. Kristín Þórmundsdóttir, talsmaður geislafræðinga, segir að einungis lágmarksþjónusta verði þá í boði á myndgreiningarsviði. Slysadeildin hafi forgang með röntgenmyndir en engar sérrannsóknir á borð við segulómun og æðaþræðingar verði í boði.

Skurð-og svæfingahjúkrunarfræðingar á Akureyri sendu frá sér yfirlýsingu rétt fyrir fréttir og lýsa yfir stuðningi við starfsfélaga sína á Landspítalanum og undrast vanþekkingu stjórnenda spítalans og yfirvalda á þeim sérhæfðu störfum sem þessar stéttir sinna. Forsvarsmenn spítalans vinna nú að neyðaráætlun sem kynnt verður síðdegis þegar þeir vita heildarfjölda uppsagna í lok dags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×