Innlent

Hjúkrunarfræðingar á Akureyri styðja baráttu starfsfélaga á LSH

Skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri lýsa yfir stuðning við starfsfélaga sína á Landspítalanum sem sagt hafa upp störfum og ganga út á miðnætti.

Í tilkynningu frá fyrrnefnda hópnum kemur fram að þeir undrist vanþekkingu stjórnenda LSH og yfirvalda á þeim sérhæfðu störfum sem þessar stéttir sinna. „Það kemur berlega í ljós þegar yfirmenn telja það raunhæfan möguleika að senda hóp hjúkrunarfræðinga til útlanda til " skyndiþjálfunar" í umræddum störfum," segir í yfirlýsingu hjúkrunarfræðinganna.

Bent er á að skurð- og svæfingahjúkrun sé 1½ árs sérfræðinám til viðbótar við fjögurra ára háskólanám í hjúkrunarfræðum. Auk þess hafi margir þeirra hjúkrunarfræðinga sem nú hafi sagt upp störfum áratuga starfsreynslu og þekkingu á sínu sviði. „Finnst okkur mannauðnum kastað á glæ og skammsýni yfirvalda skelfileg," segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Þá segja hjúkrunarfræðingar á Akureyri að boðaðar breytingar á vaktafyrirkomulagi brjóti í bága við viðurkenndar aðferðir í breytingastjórnun. Þar sé meðal annars lögð áhersla á góðan undirbúning og samvinnu við þá sem breytinguna varðar. Öryggi sjúklinga sé nú ógnað og hættuástand hafi skapast og stjórnendur Landspítalans og heilbrigðisráðherra beri ábyrgð á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×