Innlent

Geislafræðingar ganga líka út á miðnætti

MYND/Hari

Geislafræðingar hafa líkt og skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar ákveðið að verða ekki við tilmælum Landspítalans um að fresta uppsögnum sínum um fimm mánuði meðan unnið er að lausn deilu um vaktafyrirkomulag. „Við göngum út á miðnætti," segir Kristín Þórmundsdóttir, trúnaðarmaður geislafræðinga, en þeir tilkynntu yfirmönnum sínum ákvörðunina í morgun.

Enn fremur skora geislafræðingar á stjórnendur Landspítalans að halda óbreyttu vaktakerfi og bíða með að breyta nokkru þar til deildir myndgreiningarsviðs fara undir eitt og sama þakið. Að sögn Kristínar gerist það á nýjum spítala sem á að byggja. Alls hætta um 40 geislafræðingar sem starfa bæði í Fossvogi og á Hringbraut en eftir verða um tíu geislafræðingar. Kristín segir að geislafræðingar líti svo á að þeim hafi verið sagt upp með áformunum um breytingar á vaktafyrirkomulagi og þeir bíði eftir viðbrögðum stjórnenda spítalans.

Í gær tilkynntu skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar að þeir myndu ekki fara að tilmælum stjórnenda spítalans og fresta uppsögnum sínum sem taka gildi á miðnætti. Er reiknað með því að um 90 hjúkrunarfræðingar gangi út. Stjórnendur spítalans, starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins og fulltrúar sjúkrahúsanna á Selfossi, Akranesi, í Reykjanesbæ og Hafnarfirði unnu langt fram eftir kvöldi í gær að því að útfæra neyðaráætlun sem taka á gildi þegar þessi 140 manna hópur gengur út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×