Innlent

Óheppilegt hjá Ágústi

Ágúst Einarsson, rektor háskólans á Bifröst, segir það óheppilegt hvernig hann stóð að brottrekstri þriggja nemenda sem vikið var úr skólanum eftir að lítið magn fíkniefna fannst í í nemendaíbúðum þeirra eftir umfangsmiklar húsleitir.

Þetta kemur fram í svari Ágústs til siðanefndar skólans en einn nemendanna sem vikið var úr skólanum kærði Ágúst til nefndarinnar.

Nemandinn kærði Ágúst fyrir að hafa rofið trúnað með því að senda tilkynningu um brottrekstur hans til þriggja nemenda sem vikið var úr skóla á sama tíma og fyrir samskonar sakir í einu og sama skeyti. Þannig hafi Ágúst upplýst hina nemendurna um persónuleg málefni hvors annars.

Í siðareglum Háskólans á Bifröst segir: „Starfsfólk virðir nemendur og annað samstarfsfólk sem einstaklinga og gætir trúnaðar um persónuleg málefni þeirra, sem og um trúnaðarmál sem varða þriðja aðila. Starfsfólk gætir fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni nemenda eða samstarfsfólks eru til umræðu."

Eftir að siðanefndin hafði fjallað um málið komst hún að þeirri niðurstöðu að tilkynning um brottrekstur nemandans sem kærði hefði átt að berast honum einum. Samt sem áður er það niðurstaða hennar að Ágúst hafi ekki gerst brotlegur við siðaregur skólans. Siðanefndin byggir það meðal annars á því að það hafi verið altalað innan skólans hvaða nemendur ættu í hlut og trúnaður við þá hafi því ekki verið rofinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×