Innlent

Ók á ofsahraða yfir hringtorg

Fólksbíll gjöreyðilagðist þegar honum var ekið yfir upphlaðið hringtorg á mótum Bæjarháls og Tunguháls í Árbæjarhverfi í Reykjavík í nótt. Ökumaður, sem var einn í bílnum, slapp ómeiddur. Hann hefur verið á mikilli ferð því tólf metra bremsuför mældust áður en hann ók upp í grjóthleðsluna og kastaðist yfir hana.

Ölvaður ökumaður, sem ók bíl sínum út af í efstu brekku Kamba á Suðurlandsvegi, á móts við útsýnisskífuna, síðdegis í gær, var enn að sofa úr sér ölvímuna í fangageymslum á Selfossi í morgunsárið. Það var lán hans í óláninu að líklega hefur hann verið á lítilli ferð því annars hefði hann farið fram af fjallsbrúninni.

Innbrot og sjónhverfingar

Flutningabíll og dráttarbíll rákust saman á Vesturlandsvegi norðan við Borgarnes í gærkvöldi og höfnuðu báðir bílarnir utan vegar. Ökumaður dráttarbílsins meiddist minniháttar en ökumaður hins bílsins slapp ómeiddur. Slysið varð með þeim hætti að futningabíllinn var að aka faramúr dráttarbílnum, þegar ökumaður dráttarbílsins beygði til vinstri í veg fyrir hann.

Brotist var inn í Árbæjarskóla í Reykjavík í nótt og rótað þar í leit að verðmætum. Ekki liggur fyrir hvort einhverra hluta er saknað, en þjófurinn komst undan og er ófundinn.

Þrír rúmenskir karlmenn, sem grunaðir eru um að hafa svikið fé út úr starfsfólki í verslunum með eins konar sjónhverfingum, voru í gær úrskurðaðir í tveggja vikna farbann. Þeir voru handteknir í veitingaskálanum Baulu í Borgarfirði, þar sem þeir voru á leið norður í land. Mennirnir komu hingað til lands á mánudagskvöldið og hófu fjársvik sín á Suðurnesjum og síðan á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×