Innlent

Geiri fær milljón í miskabætur - Blaðamenn ætla að áfrýja

Andri Ólafsson skrifar

Ásgeir Davíðsson, sem kenndur er við Goldfinger, vann í dag meiðyrðamál sem hann höfðaði gegn tveimur höfundum greinar sem birtist um súlustaðinn Goldfinger í tímartitinu Ísafold.

Höfundarnir, Jón Trausti Reynisson, sem nú ritstýrir DV, og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, sem nú ritstýrir Nýju lífi, létu að því liggja í greininni að mansal og vændi væri stundað á Goldfinger. Frásögn þeirra var byggð á viðtölum við heimildarmenn sem þekktu til á staðnum.

Ásgeir Davíðssom var afar ósáttur við greinina en bauð sættir ef Ísafold bæði hann afsökunar. Á það var ekki fallist og Ásgeir höfðaði því mál.

Héraðsdómur felldi svo dóm í dag. Í honum eru 7 af 25 kærðum ummælum í greininni dæmd ómerk. Þar að auki er Ásgeiri dæmd ein milljón í skaðbætur og 300 þúsund krónur til þess að birta niðurstöður dómsins í fjölmiðlum.

"Þetta var leiðindamál," segir Ásgeir Davíðsson þegar Vísir náði af honum tali, skömmu eftir að dómur féll í dag. Hann segist ekki hafa höfðað mál út af peningum heldur hafi hann viljað leitað réttar síns þar sem mikið hafi hallað á hann í umfjöllun Ísafoldar.

Jón Trausti Reynisson, annar höfundur greinarinnar, ef afar ósáttur við dóminn.

"Við munum áfrýja þessu umsvifalaust. Við erum ósammála niðurstöðunni og teljum hana gera blaðamennsku á Íslandi mikinn óleik."

Þar að auki finnst mér afar óviðeigandi að Geiri á Goldfinger fái hærri skaðabætur en fórnarlamb í nauðgunarmáli," segir Jón Trausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×