Innlent

Stjórnlaus þjóðarskúta og strútar í ríkisstjórn

Bjarni Harðarson var upphafsmaður umræðunnar um efnahagsmálin.
Bjarni Harðarson var upphafsmaður umræðunnar um efnahagsmálin. MYND/GVA

Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega ríkisstjórnarflokkanna fyrir aðgerðaleysi í efnahagsmálum í þeirri miklu verðbólgu sem nú er hér á landi. Var þjóðarskútan sögð stjórnlaus og ríkisstjórninni líkt við strúta sem styngju höfðinu í sandinn.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins vegna grafalvarlegrar stöðu í efnahagsmálum eins og hann orðaði það. Þjóðin biði eftir því að eitthvað yrði gert og mjór væri mikils vísir en sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til fjórar milljónir til þess að berjast gegn verðbólgunni bæri vott um undarlegt skopskyn. Vísaði hann þar til fjármuna sem verja á til verðlagseftirlits. „Er ríkisstjórnin að gera at í efnhagsástandin," spurði Bjarni og sagði Íslendinga stefna inn í ástand sem yrði verr og verra.

Sagði hann stjórnarandstöðuna lagt fram ýmsar tillögur, þar á meðal þjóðarsátt, til þess að stemma stigu við verðbólgunni. Þá ættu Íslendingar sterkan ríkissjóð en það þyrfti að nota hann. Spurði Bjarni hvort eining væri um aðgerðaleysið hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Mikill kaupmáttur, lítið verðskyn og skortur á samkeppni

Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að allir deildu áhyggjum af efnahagsmálum. Benti hann á að erlendur gjaldeyrir hefði hækkað um fjórðung frá áramótum og það hefði farið út í verðlagið. Eftir góðæri síðustu ára væru þrjú heimatilbúin vandræði. Það væru mikill kaupmáttur, lítið verðskyn og skortur á samkeppni.

Það myndi slá á einkaneyslu á næstunni og taka yrði tillit til breytinganna við endurskoðun fjárlaga. Ekki hefði verið talin ástæða til endurskoðunar á fjárlögunum eftir fyrstu þrjá mánuði ársins en breytingar hefðu orðið síðan þá og fjárlaganefnd myndi fara yfir málið á næstunni.

Brýnasta verkefnið að koma ríkisstjórninni til veruleikans

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri - grænna, sagði að fjárlaganefnd yrði að taka upp fjárlögin og endurskoða miðað við aðstæðurnar nú. Það skipti miklu máli að vinna að trúverðugleika. Benti hann á að í fyrra hefði verið spáð 3,3 prósenta verðbólgu á þessu ári. Í janúar hefði þessi tala breyst í 4,4 prósent og í 8,4 prósent í apríl. Verðbólga væri nú 11,8 prósent. Grundvallarforsendur fjárlaga væru brostnar út frá þessu og það sýndi einnig spá fjármálaráðuneytisins um þróun á gengi krónunnar. Brýnasta vandamálið væri að koma ríkisstjórninni til veruleikans til þess að takast á við ástandið.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, benti á að ríkisstjórnin hefði setið í 11 mánuði en staðan væri þannig að verðbólga hefði ekki verið hærri í 18 ár. Mestur hluti hennar væri kominn til á síðustu þremur mánuðum og nú væru komin þau vatnaskil að ábyrgðin á ástandinu væri komin á herðar ríkisstjórnarinnar. Ný ríkisstjórn hefði átt að koma í framkvæmd nýrri stefnu og ef hún hefði slíka stefnu þá væri verðbólgan ekki svo mikil. Ríkisstjórnin flatræki undan vindinum og enginn skiptstjóri væri á þjóðarskútunni og áhöfnina vantaði líka.

Forsendur fjárlaga algerlega brostnar

 

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði söguskýringur Kristjáns Þórs um þrjú heimatilbúin vandamál skrýtna. Hið rétta væri að vandinn væri vanmáttug ríkisstjórn. Hluta af ástandinu mætti rekja til ytri aðstæðna en meirihlutinn væri vegna framtaksleysis ríkisstjórnarinnar.

Vísaði hún til þess að Kristinn H. Gunnarsson hefði talað um skútu án skipstjóra en eins mætti tala um strúta sem styngju höfðinu í sandinn. Þannig væri farið með ríkisstjórnina. Sagði hún fólk ekkert vita hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera en hún teldi að gera ætti eins og Seðlabankinn hefði lagt til í svari við spurningum framsóknarmanna, að fara yfir forsendur fjárlaga því þær væru algerlega brostnar.

Þjóðarátak þarf gegn sjálfvirkum verðhækkunum

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði stjórnarandstöðun hafa gert gys að fjögurra milljóna króna framlagi ríkisstjórnarinnar. Það væri lágt en undirstrikaði ákveðinn vilja. Það þyrfti að gera þjóðarátak til þess að vinna gegn sjálfvirkum verðhækkunum sem farnar væru í gegn. Vandinn væri gríðarlega alvarlegur og nú þyrftu fyrirtækin að leggjast á árarnar með ASÍ og binda enda á þetta. Ríkisstjórnin myndi að sjálfsögðu taka þátt í þeirri vegferð.

Þá sagði Árni Páll menn geta þakkað fyrir að eina blessun, að hafa ekki framsóknarmenn í ríkisstjórn. Þeir hefðu lagt til þrjú álver og vaxtalækkun til þess að takast á við ástandið. Hvernig menn myndu keyra skynsamlega efnahagsstefnu með þeim hætti væri hulin ráðgáta. Það væri gott að hafa ekki slíkan brennuvarg í slökkviliðinu.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknfarflokksins, benti á 20 prósenta útgjaldaaukingu ríkisstjórnarinnar á milli áranna 2007 og 2008. Ríkisstjórnin hefði slegið tóninn með því og því væri ábyrgðarlaust að kenna fyrirtækjum og fólkinu í landinu um það hvernig komið væri. Ríkisstjórnin væri gjörsamlega stikkfrí en staðreyndin væri sú að hún bæri ábyrgð á undirliggjandi óstöðugleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×