Innlent

Samþykkja vínveitingaleyfi fyrir KSÍ

MYND/Pjetur

Borgarráð hefur samþykkt umsókn Knattspyrnusambands Íslands um rekstrarleyfi fyrir veitingastað með vínveitingaleyfi í höfuðstöðvum sínum.

Umsókn þessa efnis var samþykkt á fundi borgarráðs í gær. Samkvæmt umsókn KSÍ er veitingastaðurinn skilgreindur í flokki þrjú sem felur í sér að um sé að ræða umfangsmikinn áfengisveitingastað. Sótt er um leyfi til að veita áfangi til klukkan eitt að nóttu á virkum dögum og til þrjú um helgar.

Fram kemur í umsókn um rekstrarleyfið að samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar séu áfengisveitingar ekki heimilaðar á veitingastöðum í húsum þar sem fram fara skipulegar íþróttaæfingar barna og unglinga. Þar sem eingöngu sé um að ræða sérinngang inn á veitingastað megi heimila þar áfengisveitingar. Þá eigi bannið ekki við um veitingastaði í húsum sem einungis eru til félagsstarfs en hvorki til íþróttaæfinga né keppni.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur gerir ekki athugasemdir við að KSÍ fái rekstrarleyfið þar sem umsóknin sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkurborgar segja til um. Þau skilyrði eru sett í umsögn um rekstrarleyfið að KSÍ haldi lóð og nánasta umhverfi veitingastaðarins hreinu og þrífi ávallt að skemmtun lokinni.

Það er lögreglustjóri sem á endanum gefur út rekstrarleyfið en það er einnig háð samþykki eldvarnareftirlits slökkviliðsins, umsögn umhverfissviðs og byggingarfulltrúa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×