Innlent

Segir Davíð stjórna og Geir vera farþega

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra.
Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, vera við stýrið og að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sé farþegi þegar kemur að atburðum dagsins. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu hennar.

,,Á meðan forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var staddur í New York til að tala fyrir aðild Íslands að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, gerðist ýmislegt hér heima. Í fyrsta lagi missti Ísland af þátttöku í gjaldeyrisskiptasamningum sem bandaríski Seðlabankinn gerði við nágranna okkar á Norðurlöndum. Stjórnvöld urðu tvísaga um það hvort reynt var að hoppa upp í þann vagn eða ekki," segir Valgerður og bætir við að eftir á að hyggja hafi túlkun Tryggva Þórs Herbertssonar, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, sennilega verið sú rétta - að Seðlabanki Íslands hafi ekki viljað vera með.

Komast þarf til botns í því hvort nægjanlega traustar tryggingar voru ekki boðnar gegn lánveitingu Glitnis, að mati Valgerðar. ,,Hvers vegna ætlar ríkið að kaupa 75% hlut í Glitni í stað þess að eyða lægri fjárhæðum af skattfé almennings í slíkar fjárfestingar og leysa málið að öðru leyti með lánveitingu ef þörf var á?"

Valgerður segir að myndin sem birtist af lykilpersónum í málinu eftir fundarhöld í nótt hafi verið táknræn. ,,Davíð ók og Geir var farþegi um borð. Samfylkingunni var ekki boðið með."

Pistil Valgerðar Sverrisdóttir er hægt lesa hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×