Innlent

Annþór segist blásaklaus

Stígur Helgason skrifar
Sekir eða saklausir? Annþór mætti í dómsal hlaðinn mat og veigum sem hann útdeildi til sumra hinna sakborninganna, sem allir huldu andlit sín fyrir myndavélalinsunum.
Sekir eða saklausir? Annþór mætti í dómsal hlaðinn mat og veigum sem hann útdeildi til sumra hinna sakborninganna, sem allir huldu andlit sín fyrir myndavélalinsunum. Fréttablaðið/gva
Tveir bræður sem ákærðir eru fyrir aðild að innflutningi á um fimm kílóum af fíkniefnum til landsins segjast báðir aðeins hafa verið milliliðir á milli höfuðpauranna, Annþórs Kristjáns Karlssonar og Tómasar Kristjánssonar, sem starfaði hjá hrað­sendingar­þjónustunni UPS. Annþór og Kristján neita hins vegar báðir sök og segjast hvergi hafa komið nærri smyglinu.

Aðalmeðferð var í málinu í gær. Fjórir eru ákærðir, Annþór, Tómas og bræðurnir Ari og Jóhannes Páll Gunnarssynir. Þeir eru sakaðir um að hafa skipulagt smygl á 4,6 kílóum af amfetamíni og 600 grömmum af kókaíni til landsins frá Þýskalandi í nóvember síðastliðnum.

Jóhannes játar skýlaust að hafa borið skilaboð á milli Ara bróður síns og Tómasar, og Ari játar sömuleiðis að hafa verið tengiliður Annþórs við Jóhannes. Ari neitar því hins vegar að hafa komið að skipulagningu smyglsins. Bræðurnir fullyrða báðir að Annþór hafi haft veg og vanda af fjármögnuninni og skipulagningunni, með aðstoð frá Tómasi, æskuvini Jóhannesar. Öll samskipti þeirra tveggja hafi þó farið í gegnum þá bræður.

Bræðurnir gáfu skýrslu fyrir dómnum hvor í sínu lagi. Framburður þeirra var mjög áþekkur. „Annþór gerði bara eins og Annþór vildi gera,“ sagði Jóhannes, sem segist aldrei hafa getað haft áhrif á atburðarásina. „Ég var logandi hræddur við hann,“ sagði Ari, sem brast síðan í grát þegar hann lýsti framtíðar­áformum sínum, en hann á von á barni með unnustu sinni.

Annþór kom fyrir dóminn og kvaðst blásaklaus. Hann sagðist þekkja Ara eftir steraviðskipti, og hafa látið hann fá aðgang að tölvupóstsvæði sínu á vefnum sem hluta af hrekk. Ari hafi ætlað að senda bróður sínum skilaboð í nafni Annþórs til að hræða hann. Önnur málsatvik sagðist hann ekkert kannast við.

Tómas gaf skýrslu síðastur sakborninga. Hann er sakaður um að hafa átt þátt í skipulagningu smyglsins, og að hafa átt að taka á móti efnunum þegar þau komu til landsins með hraðsendingu. Hann neitaði öllu og sagðist hvergi hafa komið nærri málinu. Hann kvaðst jafnframt hissa á því að Jóhannes, æskuvinur hans, hefði stungið hann í bakið með því að bera á hann þessar sakir.

Tómas hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins síðan í janúar. Hæstiréttur staðfesti í gær framlengingu á varðhaldinu til 27. júní. Annþór sat lengi í varðhaldi en hefur nú hafið afplánun annars dóms. Báðir bræðurnir sátu um tíma í varðhaldi. Málið var dómtekið í gær að loknum vitnaleiðslum og málflutningi lögmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×