Viðskipti innlent

Við nýjan tón kveður í erlendri umfjöllun

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Óðagot á miðlurum Verðbréfamiðlarar í óðagoti eftir lækkanir í kauphöllinni í New York. Í leiðara Financial Times er sagt miður ef alþjóðlegt hræðsluástand yrði til að trufla gang efnahagsmála hér.
Óðagot á miðlurum Verðbréfamiðlarar í óðagoti eftir lækkanir í kauphöllinni í New York. Í leiðara Financial Times er sagt miður ef alþjóðlegt hræðsluástand yrði til að trufla gang efnahagsmála hér. Fréttablaðið/AP
Stoðir íslenska hagkerfisins eru traustar og bankar þjóðarinnar ólíklegri til að fara leið Northern Rock, segir í leiðara Financial Times í gær. Í blaðinu er að finna ítarlega umfjöllun um íslenskt efnahagslíf og banka, á forsíðu, inni í blaði og í leiðara.

Í viðtali við blaðið segir Richard Portes, prófessor við London Business School, ekkert í rekstri eða aðstæðum íslenskra banka réttlæta skuldatryggingaálagið (CDS) sem þeir búa við. „CDS markaðurinn er mjög brenglaður. Hann byrjaði sem trygging á skuldir, en varð svo verkfæri fyrir spákaupmennsku,“ segir hann.

Þá er vitnað í álit matsfyrirtækisins Moody‘s að stjórnvöld hér hafi aðgang að nægu fé, jafnt erlendu sem krónum, til að eiga við stóráföll í bankakerfinu, þrátt fyrir miklar erlendar skulbindingar bankanna.

Í leiðara blaðsins er áréttað að landið og Seðlabankinn standi frammi fyrir nokkrum vanda við að koma böndum á verðbólgu og ná jafnvægi eftir uppgang í efnahagslífinu.

„Það þýðir hins vegar ekki að Ísland lendi í kreppu,“ segir þar og bent á margvíslegan styrk þjóðarinnar, svo sem í sjávarútvegi, ferðamennsku, tækni, áliðnaði og á sviði jarðhita.

„Miður væri ef hræðslukast á alþjóðlegum mörkuðum yrði til að gera nauðsynlegt aðlögunarferli til að ná tökum á verðbólgu erfiðara.“

„Mjög jákvætt er að sjá þarna ákveðinn viðsnúning í umfjöllun erlendra miðla, bæði í Financial Times í gær og daginn áður á CNBC,“ segir Finnur Oddsson, framvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

„Þetta sýnir líka að samhent vinna hagsmunaðila hér við að koma á framfæri réttum upplýsingum er að skila sér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×