Innlent

Tjáir sig ekki um hvort til standi að auglýsa fleiri stjórnendastörf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs Landsbankans.
Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs Landsbankans.

Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs Landsbankans, vill ekki tjá sig um það hvort unnið sé að því að skipta æðstu stjórnendum úr gamla Landsbankanum út úr ábyrgðarstöðum í nýja bankanum. Starf innri endurskoðanda Landsbankans er auglýst laust til umsóknar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag.

Brynjólfur Helgason var ráðinn í starf innri endurskoðanda Landsbankans í október síðastliðnum, en hann stýrði alþjóðasviði bankans áður en hann var þjóðnýttur. „Ég hef ekkert um það mál að segja annað en að það er verið að auglýsa starf innri endurskoðanda," sagði Ásmundur Stefánsson þegar að Vísir spurði hvort til stæði að skipta gömlu stjórnendunum út. Blaðamaður Vísis gekk á Ásmund og endurorðaði spurningu sína. Spurði hvort til stæði að ráða í fleiri stjórnendastöður. „Ég get endurtekið svarið eins oft og þú vilt. En ég hef í sjálfu sér ekkert annað um málið að segja en það að það er verið að auglýsa starf innri endurskoðanda," sagði Ásmundur.

Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs bankans, segir að Brynjólfur hafi látið af starfi að eigin frumkvæði. Ekki verði ráðið í þær stjórnendastöður sem þegar séu mannaðar. Það sé nýbúið að ráða í allar stjórnendastöður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×