Innlent

Sérsveitin send til Grímseyjar að handtaka vopnaðan afbrotamann

Sérsveit lögreglunnar var send til Grímseyjar nú skömmu fyrir kvöldmatinn til að handtaka afbrotamann þar. Var maðurinn vopnaður hníf og sleggju og ógnaði eyjabúum sem og gestum á árlegu sjóstangaveiðimóti sem þar er haldið um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er maður þessi með langan afbrotaferil á bakinu þar á meðal fyrir líkamsárásir. Því var brugðist skjótt við er beiðni barst um aðstoð frá Grímsey og menn úr sérsveitinni sendir strax á staðinn.

Að sögn sjónarvotts gekk handtakan mjög hratt og vel fyrir sig. "Maður áttaði sig varla á þvi að sérsveitin var komin, búin að taka manninn úr umferð og komin í loftið með hann á leið til Akureyrar," segir sjónarvotturinn í samtali við Vísi.

Sjónarvotturinn segir að maðurinn hafi ógnað fólki í eyjunni. Þar sem mikið er af fjölskyldufólki með börn með sér vegna sjóstangaveiðimótsins var óskað strax eftir því við lögreglu að maðurinn yrði tekinn úr umferð. "það er ástæða til að hrósa skjótum viðbrögðum lögreglu," segir hann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×