Innlent

Dagskrá 1. maí í Reykjavík

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Baráttudegi verkalýðsins er fagnað með margvíslegum hætti víða um land. Á suðvesturhorninu virðast veðurguðirnir meira að segja hliðhollir verkalýðnum en svo er nú ekki á hverju ári.

Í Reykjavík verður safnast saman við Hlemm um klukkan 13 og leggur kröfuganga af stað þaðan klukkan 13:30. Gengið verður um Laugaveg, Bankastræti, Austurstræti og inn á Ingólfstorg. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngu.

Klukkan 14:10 hefst útifundur á Ingólfstorgi með ávarpi fundarstjóra, Fanneyjar Friðriksdóttur, en hún er ritari Eflingar. Þá ávarpar Georg Páll Skúlason, formaður Félags bókagerðarmanna samkomuna en því næst stígur hljómsveitin Sprengjuhöllin á stokk og galdrar fram seiðandi tóna.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu, ávarpar að því loknu viðstadda en í kjölfar hans fer Gísli Einarsson fréttamaður með gamanmál af alkunnri kerskni sinni.

Gabriella Unnur Kristjánsdóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, flytur þá ávarp sitt en svo kemur röðin að Sprengjuhöllinni á ný. Fundarstjóri slítur þá fundi og viðstaddir hefja upp raust sína og syngja Internationalinn, hið landamæralausa þjóðlag verkalýðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×