Erlent

Vilja sterkari viðbrögð frá ESB við árásum Rússa

Bernarnd Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, er hér á ferð í Gori í Georgíu í dag en hann var sendur á ásamt finnskum starfsbróður sínum til þess að miðla málum í deilunni.
Bernarnd Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, er hér á ferð í Gori í Georgíu í dag en hann var sendur á ásamt finnskum starfsbróður sínum til þess að miðla málum í deilunni. MYND/AP

Míkheil Saakashvílí, forseti Georgíu, sakaði í dag Rússa um að reyna að steypa ríkisstjórn hans af stóli með árásum á skotmörk í Georgíu.

Greint var frá því fyrr í dag að Rússar hefðu hafnað tillögum Georgíumanna um vopnahlé í deilunni um Suður-Ossetíu sem hefur stigmagnast frá því fyrir helgi. Rússar segjast hins vegar engin áform hafa um að ráðast inn í Georgíu, þeir séu aðeins að verja rússneska borgara, en meirihluti Suður-Osseta er með rússneskt ríkisfang.

Sendiherra Georgíu gagnvart Evrópusambandinu, Salome Samadashvílí, kallaði eftir sterkari viðbrögðum frá sambandinu við árásum Rússa en eins og fram hefur komið vill Georgíustjórn styrkja sambönd sín við ESB og NATO. Evrópusambandið hefur hingað til ekki verið með stóryrtar yfirlýsingar í garð Rússa heldur aðeins hvatt Rússa til að hætta hernaðaraðgerðum á landsvæði Georgíu en hins vegar hefur engu verið hótað enda sambandið háð Rússum í orkumálum.

Þá sagði sendiherra Georgíu að Georgíumenn gyldu nú fyrir það að aðildarþjóðir NATO hefðu ekki getað komið sér saman um hvenær þjóðin yrði hluti af varnarbandalaginu. „Rússland hefur sett sér það markmið að vinna gegn stækkun NATO," sagði sendiherrann og vísaði þar til harðrar andstöðu Rússa við því að nágrannaríkin Úkraína og Georgía gangi í bandalagið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×