Innlent

Þrjú kortasvikamál á skömmum tíma

MYND/Stefán

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákveður síðar í dag hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur Rúmenum sem grunaðir er um þjófnaði úr hraðbönkum hér á landi. Þrjú mál þessarar tegundar eru til rannsóknar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Þremenningarnir, tveir karlar og ein kona, voru handteknir fyrir um viku eftir að upp komst að hundruðum þúsunda hefði verið stolið í hraðbönkum. Á þriðja hundrað korta var í fórum fólksins en þau voru með greiðslukortaupplýsingum sem talið er að aflað hafi verið með ólögmætum hætti af kortum grunlausra kortanotenda erlendis. Fólkið var úrskurðað í gæsluvarðhald til dagsins í dag en að sögn Ómars Smára Ármannssonar hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður tekin ákvörðun síðar í dag um það hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald.

Þessu til viðbótar eru tvö svipuð mál til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Karl og kona sem talin eru vera frá Rúmeníu voru gripin við komuna til landsins á sunnudaginn var með fjölda falsaðra korta. Þau hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald fram yfir helgi. Að sögn Jóhannesar Kristbjörnssonar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum er rannsókn þess máls skammt á veg komin.

Þessu til viðbótar er máli Þjóðverja og Rúmena, sem gripnir voru í Leifssstöð á leið úr landi með milljónir króna, ekki lokið. Þeir voru teknir í lok mars og leikur grunur á að þeir hafi rænt fénu úr hraðbönkum í Reykjavík. Mennirnir afrituðu kortaupplýsingar erlendis og yfirfærðu á önnur kort sem þeir notuðu svo hér á landi, líkt og þremenningarnir sem nú eru í haldi í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×