Innlent

Trúi ekki að hún hafi ætlað að svipta sig lífi

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Valgarður

Helga Guðrún Hlynsdóttir, náin vinkona og nágranni hinnar ungu tveggja barna móður sem lést af völdum eiturlyfja í byrjun maí trúir því ekki að vinkona hennar hafi ætlað að svipta sig lífi. Hún segir stúlkuna hafa verið góða móður sem beið eftir því að fá drengina sína tvo heim til sín fyrir fullt og allt.

Ingibjörg S. Benediktsdóttir, frænka ungu stúlkunnar, gagnrýnir barnaverndarnefnd harðlega í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún nefndina hafa brugðist hlutverki sínu algjörlega þegar hún leyfði móðurinni að fá syni sína tvo heim.

Helga Guðrún sem hitti móðurina ungu upp á hvern einasta dag er ekki sammála Ingibjörgu og segir hana hafa sinnt drengjunum sínum vel. „Það var ekki hægt að sjá þetta fyrir, í það minnsta ekki af minni hálfu. Þetta kom eins og blaut tuska framan í mann," segir Helga Guðrún um sviplegt fráfall vinkonu sinnar.

„Ég trúi því ekki að hún hafi svipt sig lífi. Vissulega var hún stundum langt niðri en hún kom alltaf fljótt upp aftur. Hún kom til mín á hverjum degi og ég hefði tekið eftir því ef eitthvað stóralvarlegt væri að. Ég held að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu stór skammturinn var og haldið að hún myndi bara sofna og vakna aftur. Hún var farin að sjá fram á að fá drengina alkomna til sín í lok júní og hún hlakkaði mikið til þess," segir Helga Guðrún.


Tengdar fréttir

Harma mjög að fjölskyldan skuli upplifa þetta

„Ég harma það mjög að fjöldskyldan skuli upplifa þetta. Það verður farið í að skoða þetta með starfsmönnum sem komu að málinu og í framhaldinu verður haft samband við fjölskylduna," segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, um gagnrýni á hendur stofnuninni vegna móður tveggja drengja sem lést af völdum eiturlyfjaneyslu í upphafi mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×