Innlent

Verður að bregðast við ef olíutunnan fer í 200 dollara

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að stjórnvöld verði að móta áætlun um viðbrögð ef olíuverð fari í 200 dollara á tunnu á næstu mánuðum. Það verði að fá fólk til þess að nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti, til dæmis metan.

Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, vakti athygi á hækkandi eldsneytisverði en tunnan af olíu er nú komin yfir 130 dollara. Hún sagði að spár gerðu ráð fyrir að hún færi yfir 150 dollara fyrir árslok og jafnvel í 200 dollara á næsta ári. Spurði hún hvort einhver vinna væri í gangi af hálfu stjórnvalda til þess að bregðast við þessu og minnti á stefnumörkun fyrri ríkisstjórnar um umhverfisvæna samgöngukosti.

Geir H. Haarde sagði þetta alvarlegt mál sem setti svip sinn á efnahagslíf í öllum löndum. Ef olíuverð færi í 200 dollara væri verulega illt í efni. Það yrði að móta áætlun um að bregðast við því.

Geir sagði það enga þýðingu hafa að hnika við gjöldum ríkisins um nokkrar krónur niður á við. Það yrði að fá fólk til þess að breyta hegðun sinni og nota aðra orkugjafa. Benti hann á að metan væri innlendur orkugjafi sem Íslendingar ættu að nýta betur og grípa þyrfti til aðgerða til að stuðla að því. Þingheimur hlyti að geta sameinast um að breyta þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×