Innlent

Stjórnarandstaðan segir óeiningu í ríkisstjórninni

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Þeir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum, kvöddu sér hljóðs á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Þeir kröfðust þess að Geir H. Haarde forsætisráðherra útskýrði fyrir þingheimi hvernig stæði á því að ríkisstjórnarflokkarnir geti verið ósammála í veigamiklum málum og minntust þeir á hvalveiðar, álver og eftirlaunalög í því sambandi.

Steingrímur hóf umræðuna og sagðist undrast stefnu Samfylkingarinnar í hvalveiðimálinu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins sagði í fyrradag að ráðherrar flokksins væru andvígir því að hvalveiðum yrði haldið áfram. Þetta kallaði hann fremur aumlegan kattaþvott þar sem stjórnarflokkarnir beri sameiginlega pólitíska ábyrgð í málinu. Hann spurði samfylkingarmenn að því hvort þeir teldu að hægt væri að stæra sig af því að sem gott væri en fría sig af hinu.

Steingrímur spurði, í ljósi þess að ráðherrar Samfylkingar séu á mói málinu, hvort þingmeirihluti sé fyrir því að hvalveiðum verði áfram haldið. Hann vildi heyra frá Geir hvort hann teldi það ganga upp að ríkisstjórnin hafi tvennskonar stefnu í þessu máli.

Geir Svaraði því til að löngum hafi verið vitað um skiptar skoðanir um hvalveiðar innan flestra flokka. Hann benti á að ekkert væri tekið á málinu í stjórnarsáttmála flokkanna heldur væri verið að vinna á grundvelli ályktunar sem samþykkt var fyrir mörgum árum. Steingrími þótti ekki mikið til svara forsætisráðherra koma og sagði að sjaldan hefði fátæktin verið meiri. „Er þetta metnaðurinn sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar?",spurði hann.

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Frjálslynda flokksins var á svipuðum nótum og benti á ágreining stjórnarflokkanna í fleiri málum eins og álversbyggingum og eftirlaunalögum. Að mati Kristins standa öll spjót á Geir í eftirlaunamálinu þar sem hann hafi verið á meðal höfunda þess. Því vildi hann vita hvort Geir myndi sitja undir gagnrýni félaga sinna í meirihlutanum en þingmenn Samfylkingar hafa margir gagnrýnt málið hart. Kristinn velti því fyrir sér hvort átök næstu vikna í íslenskum stjórnmálum ættu eftir að vera á milli stjórnarflokkanna og að endingu spurði hann hvort forsætisráðherra teldi að ríkisstjórnin ætti eftir að lifa út sumarið.

Geir kom þá í pontu og svaraði, „ef þetta var fyrirspurnin, þá er svarið já."

„Við getum ekki búið við að sitja með tvær ríkisstjórnir," sagði Kristinn þá. Geir svaraði því til með því að segja: „Kristinn verður þá að gera það upp við sig hvaða ríkisstjórn hann ætlar að vera á móti," og uppskar hlátur þingheims.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×