Innlent

Lögreglan á Suðurnesjum með umferðarátak í sumar

Sérstakt umferðarátak hófst hjá lögreglunni á Suðurnesjum í dag og lýkur þann 30. september næstkomandi. Það er Umferðarstofa sem kostar eftirlitið en gert er ráð fyrir 4,5 milljónum króna til Suðurnesja.

Átakið felst í auknu hraðaeftirliti í umdæminu með sérstaka áherslu á svokallaða svarta kafla, þar sem slys hafa verið tíð og hámarkshraði verið lækkaður eins og á Reykjanesbrautinni vegna framkvæmda. Fylgst verður með gatnamótum þar sem stöðvunarskylda er til staðar. Einnig verður tekið á öðrum umferðarmálum eins og frágangi á farmi, búnaði og eftirvögnum. Eftirlitinu verður sinnt sex daga vikunnar, átta tíma í senn og á þremur tímabilum misjafnt á milli daga.

Í dagbók lögreglunnar segir að átta ökumenn hafi verið teknir, fyrsta daginn í umferðarátakinu, fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbrautinni. Sá sem hraðast ók var á 127 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.

Þá var ökumaður sviptur ökuréttindum á staðnum eftir að hafa mælst á 64 km/klst. á Norðurvöllum í Reykjanesbæ í dag, þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×