Innlent

Forseti viðskiptadeildar HR segir skólann ekki hafa keypt niðurstöður

Breki Logason skrifar
Þorlákur Karlsson forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.
Þorlákur Karlsson forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Þorlákur Karlsson forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík segir alrangt að skólinn hafi keypt niðurstöður ráðgjafafyrirtækisins Eduniversal, sem segja skólann einn af bestu viðskiptaháskólum í Vestur-Evrópu. Forseti viðskiptadeildar Háskóla Íslands sendi nemendum bréf nýlega þar sem hann gagnrýnir niðurstöðuna og leiðir að því líkur að niðurstöðurnar hafi verið keyptar.

„Það er fjöldi aðila sem metur háskóla og nota þeir mismunandi aðferðir. Þetta er ein aðferðin og voru gæðin metin útfrá ákveðnum stöðlum sem eru tilgreindir á heimasíðu Eduniversal," segir Þorlákur.

Runólfur Smári Steinþórsson formaður viðskiptaskorar Háskóla Íslands hefur gagnrýnt útnefningu Háskólans í Reykjavík harðlega. Hann segir meðal annars í fyrrnefndu bréfi að upplýsingarnar á heimasíðu Eduniversal séu oftúlkaðar og þar komi því miður ekkert fram sem styður að um sé að ræða vandaða úttekt og tilnefningu á "Bestu" háskólunum í heiminum.

Þorlákur sem tók þátt í valinu er ósammála þessu og segir fjölda sérfræðinga hafa unnið lengi við að taka saman tillögur. „Síðan hittist alþjóðleg nefnd prófessora á einum degi til þess að gefa lokasamþykki fyrir tillögunum," segir Þorlákur.

Hann segir að síðan hafi verið gerð könnun á meðal deildarforseta út um allan heim þar sem lögð var fyrir þá einföld spurning um hvort þeir mæltu með viðkomandi skóla eða ekki.

„Ég er auðvitað mjög stoltur yfir því að fjórði hver af þeim þúsund sem svöruðu hafi mælt með okkur. Að þetta hafi verið gert á einum degi eins og einhverjir hafa haldið fram er ekki rétt, viðmiðin eru mun ítarlegri."

Runólfur segir einnig í bréfinu að ekki sé hægt að kaupa orðstí háskóla, heldur þurfi menn að vinna fyrir honum.

„Þarna hlýtur hann að eiga við að við höfum keypt þetta sem er alsendis rangt. Þetta er sjálfstætt ráðgjafafyrirtæki sem lifir af því að vera með ráðgjöf við nemendur og skóla um það besta sem er í boði. Þegar þú ert óháður þarftu að lifa af, t.d með auglýsingum eða öðru sem skapar tekjur. Það kemur hinsvegar þessari könnun ekkert við. Auðvitað borguðum við ekki fyrir þetta og að halda því fram að við höfum keypt niðurstöðurnar er ekki rétt. Ég hef t.d aldrei verið beðinn um að auglýsa á síðunni. Ég fékk könnunina og síðan fékk ég niðurstöður, það eru einu tengslin."

Þorlákur ítrekar að þetta sé einungis ein leið til þess að kanna gæði Háskóla.

„Sumir tala við atvinnurekendur sem hafa ráðið nemendur, aðrir tala við nemendurna sjálfa og sumir við starfsmenn. Þessi leið var skýr og voru deildarforsetar einungis spurðir hvort þeir mæltu með viðkomandi skóla. Í ljósi þess erum við í Háskólanum í Reykjavík ákaflega ánægð með þessar niðurstöður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×