Erlent

Afmæli Mandela enn fagnað

Nelson Mandela varð níræður í júlí. Mynd/ AFP.
Nelson Mandela varð níræður í júlí. Mynd/ AFP.

Suður-Afríka hefur helgað þetta ár Nelson Mandela, vegna níræðisafmælis hans. Eiginkonur hans núverandi og fyrrverandi voru viðstaddar mikla afmælisveislu í gær.

Meðal þeirra sem mættu í afmælisveisluna í gær voru bæði Thabo Mbeki núverandi forseeti Suður-Afríku og Jacob Zuma, sem að öllum líkindum verður sá næsti.

Báðir jusu Mandela lofi. En forsetinn fyrrverandi er einkar hæverskur maður og bað fólk um að fagna ekki sér heldur Afríska þjóðarráðinu sem hafi barist fyrir jafnrétti í heila öld.

Fáir menn njóta jafn mikillar virðingar og ástar um allan heim og Nelson Mandela. Hann er lögfræðingur að mennt en sat í fangelsi í tæpa þrjá áratugi fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu hvítra manna.

Hann var loks látinn laus árið 1990 og kjörin forseti árið 1994 í fyrstu lýðræðislegu kosningum í landinu. Hann gaf ekki kost á sér aftur þegar kjörtímabil hans rann út árið 1999, þótt hann hefði getað verið viss um yfirburðasigur.

Mandela þótti sýna hvítum mönnum einstakt göfuglyndi. Ásamt Desmond Tutu biskupi setti hann á laggirnar Sátta- og sannleiksnefndina, til þess að gera upp fortíðina.

Tilgangurinn var ekki að refsa hvítum mönnum sem höfðu unnið ódæðisverk undir aðskilnaðarstefnunni -heldur að fyrirgefa þeim.

Meðal gesta í afmælinu í gær voru eiginkonur hans fyrrverandi og núverandi. Þær Graca Machel og Winnie Madikizela-Mandela stóðu hlið við hlið og vögguðu sér við tónlistina þegar hópur barna söng fyrir aldna goðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×