Innlent

Ólga eftir snarpa gengislækkun

Mikil ólga er í samfélaginu eftir snarpa gengislækkun krónunnar að undanförnu. Forsætisráðherra var í dag hvattur til þess að koma ekki heim frá Bandaríkjunum án samnings við bandaríska seðlabankann til að styrkja krónuna.

Krónan hefur sigið hratt niður á við að undanförnu og náði fyrir helgi sinni veikustu stöðu í sögunni. Á sama tíma vörðu forystumenn ríkisstjórnarinnar tíma sínum erlendis, forsætis- og utanríkisráðherra hjá Sameinuðu þjóðununum og menntamálaráðherra á knattspyrnuleik í Frakklandi.

Tilkynning Seðlabanka Íslands í gær um að bandaríski seðlabankinn hefði ekki talið ástæðu til að hafa Ísland með þegar gerður var gjaldmiðlasamningur við hina norrænu seðlabankana, hefur valdið ólgu og krafist er nánari skýringa. Bæði Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, mæltust til þess í dag að Geir H. Haarde kæmi ekki heim frá Bandaríkjunum nema hann næði gjaldmiðlasamningi til að styrkja krónuna.

Auglýsing Múrbúðarinnar í Fréttablaðinu í dag segir sitt. Þar er vöruverð auglýst í evrum og þessi skilaboð send til forsætis og utanríkisráðherra. Gangi ykkurvel í því forgangsverkefni að koma Íslandi í öryggisráðið. Gefið ykkur góðan tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×