Lífið

Lægri tónlist hvetur til nánari kynna

Jakob Frímann Magnússon. Framkvæmdastjóri miðborgarinnar.
Jakob Frímann Magnússon. Framkvæmdastjóri miðborgarinnar.

"Að vera í sambandi við annað fólk er lífsnauðsyn," segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri miðborgarinnar. Um helgina var gerð sú tilraun á nokkrum skemmtistöðum miðbæjarins að lækka tónlistina - fólk gat því bæði dansað og talað saman.

Blaðamaður Vísis var sjálfur á Ellefunni á laugardagskvöld þar sem dansgólfið iðaði af lífi við gamaldags rokk og ról. Þegar góður vinur gekk inn uppgötvaði blaðamaður sér til mikillar furðu að ekki þurfti að öskra í eyru á næsta manni til að í manni heyrðist og þegar út var komið var ekkert hávært suð sem söng mann í svefn.

Var tónlistin kannski lægri?

"Þetta er hárrétt uppgötvun," segir Jakob Frímann. "Í kjölfar fundarins sem ég blés til á fimmtudaginn með öllum helstu veitingahúsaeigendum borgarinnar og íbúasamtökum var ákveðið að lækka tónlistina. Þetta var uppástunga veitingamannana sjálfra sem fengu að hlusta á harmsögur svefnvana nágranna skemmtistaða á jaðarsvæðum."

Jakob segir þetta fyrirkomulag geta orðið að skemmtilegri tilbreytingu.

"Þetta gæti orðið til að auka kynni fólks og manna á meðal - eða þetta gæti orðið til þess að menn yrðu gjörsamlega afhuga dansfélaga sínum þegar þeir kæmust að því að hann hefði ekkert að segja. Sem er kannski gott að komast að áður en fólk leiðist heim..."

Jakob Frímann segir alveg eins von á fleiri aðgerðum til að bæta skemmtanalífið á næstunni. En eitt er víst. Dansinn dunar enn þó desíbelin lækki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.