Innlent

Nemakort Strætó bs. fyrir alla nema suma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ekki eru allir á eitt sáttir með hin svokölluðu Nemakort Strætó bs., strætisvagnakort sem sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa að og veita námsmönnum ókeypis aðgang að almenningsvögnum Strætó. Sá böggull fylgir þó skammrifi að handhafi slíks korts verður að eiga lögheimili í einhverjum hinna sex sveitarfélaga sem að kortinu standa (um er að ræða Reykjavík, Hafnarfjörð, Kópavog, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Álftanes) og auk þess að hafa aðgang að heimabanka.

„Það eru einkum tveir punktar sem við erum óhress með," segir Björg Magnúsdóttir, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands. „Fólk utan þessara sex sveitarfélaga fær ekki kort, Garðabær hefur til dæmis neitað að taka þátt í samstarfinu auk þess sem þetta er alveg glatað fyrir stúdenta sem búa úti á landi og eru með lögheimili þar," segir hún enn fremur.

Björg segir minnihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lagt fram bókun í gær þar sem Strætó bs. er hvatt til að veita námsmönnum með lögheimili úti á landi nemakort svo jafnræðis sé gætt. Enn fremur bendir Björg á að útlendingar sem koma til náms í styttri tíma og flytja ekki lögheimili sitt til Íslands njóti þjónustunnar ekki. Stúdentaráð vinnur að sögn Bjargar að tillögum um leiðir til úrbóta og kveðst hún óánægð með að fyrirsvarsmenn stjórnsýslu og fyrirtækja bendi hver á annan, þannig bendi Strætó á sveitarfélögin og öfugt.

Ekki náðist í Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætó, til að inna hann álits.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×