Innlent

Borgarsjóður rekinn með 22,.5 milljarða króna afgangi

MYND/Anton Brink

Borgarsjóður var rekinn með 22,5 milljarða króna afgangi í fyrra samkvæmt ársreikningi sem birtur var í dag og tekinn var til fyrri umræðu á borgarstjórnarfundi sem nú stendur yfir.

Þá reyndist samanlögð afkoma borgarsjóðs, það er þeirrar starfsemi sem fjármögnuð er að öllu leyti með sköttum, og fyrirtækja að hluta eða öllu leyti í eigu borgarinnar jákvæð um tæpa 17 milljarða.

Í ársreikningnum kemur enn fremur fram að tekjur borgarsjóðs hafi numið 60,7 milljörðum í fyrra en þar af námu skatttekjur tæpum 46 milljörðum. Álagningarhlutfall útsvars var 13,03 prósent sem er lögbundið hámark. Rekstrartekjur borgarsjóðs og fyrirtækja í eigu borgarinnar námu samstals 87 milljörðum.

Borgarstarfsmennn 6.400 talsins

Laun og launatengd gjöld borgarsjóðs reyndust 27 milljarðar króna, en þar af nam breyting lífeyrisskuldbindingar rúmum milljarði. Alls störfuðu ræplega 7.700 manns hjá borginni og fyrirtækjum að hluta eða öllu leyti í eigu borgarinnar, þar af reyndust borgarstarfsmenn tæplega 6.400.

Heildareignir borgarinnar samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok 2007 samtals rúmum 314 milljörðum króna en heildarskuldir voru 155 milljarðar. Eigið fé var því tæplega 159 milljarðar króna í lok síðasta árs. Fram kemur í ársreikningnum að rúmlega 117.700 manns hafi búið í Reykjavík 1. desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×