Innlent

Tannheilsa ungra barna hérlendis er skelfileg

Tannheilsa ungra barna er skelfileg að sögn tannlæknis hjá Lýðheilsustöð. Margt bendir til að tannheilsa barna af erlendum uppruna sé enn verri en íslenskra. Dæmi eru um að ástandið sé svo slæmt að rífa þurfi fjölda tanna úr ungum börnum.

Samkvæmt rannsókn frá því í fyrra hefur tannheilsa íslenskra barna versnað síðastliðin tíu ár. Efnt var til átaks fyrir ári og var boðið upp á ókeypis tannskoðun fyrir þriggja og 12 ára. Þrjátíu prósenta aukning hefur orðið á tannskoðun þriggja ára barna en engin sjáanleg aukning er á skoðun tólf ára barna.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Lýðheilsustöð, segir átakanlegt að þurfa rífa fjölda tanna úr börnum en oft sé ekki annað í stöðunni þar sem þær séu mikið skemmdar. Hólmfríður segir skýra stefnu vanta í tannverndarmálum og besta leiðin væri að hafa tanneftirlit sem hluta af ungbarnaeftirliti.

Samkvæmt forkönnun á tannheilsu leikskólabarna sem enn er í vinnslu bendir margt til þess að tannheilsa barna af erlendum uppruna sé verri en tannheilsa íslenskra barna. Líkur séu á að tennur þeirra skemmist meira en tennur íslenskra barna á leikskólaaldri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×