Innlent

Yfirstjórn öldrunarmála til félagsmálaráðuneytisins

Björn Gíslason skrifar
MYND/Pjetur

Yfirstjórn öldrunarmála færist frá heilbrigðis- og tryggingmálaráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Formaður Landssambands eldri borgara segir sambandið lengi hafa barist fyrir þessum breytingum.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að markmiðið með þessari breyttu verkaskiptingu sé að gera fyrirkomulag heilbrigðis- og tryggingakerfisins auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Þannig mun Tryggingastofnun færast undir félagsmálaráðuneytið og sjá um lífeyristryggingar en sjúkra- og slysatryggingar verða áfram á forræði heilbrigðisráðuneytisins.

Þá verður sett á fót sérstök stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðherra og mun meðal annars annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu. Stefnt er að því að hún verði komin í fullan rekstur í síðasta lagi 1. september 2008.

Þetta þýðir með öðrum orðum að skilið verður á milli heilbrigðisþjónustu sem öldruðum verður veitt og búsetuúrræða og almennrar öldrunarþjónustu sem verður flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Þetta ferli er sagt nokkuð flókið og tímafrekt. Meðal annars þarf að skipta daggjöldum í tvennt þar sem annars vegar verða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneyti ákveður og hins vegar daggjöld vegna búsetu- og almennrar öldrunarþjónustu sem félags- og tryggingamálaráðuneytið ákveður. Stefnt er að því að þessari vinnu verði lokið fyrir 1. september á næsta ári.

Yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra færist auk þess til félags- og tryggingamálaráðuneytis og er gert ráð fyrir að hvort ráðuneyti skipi einn fulltrúa í samstarfsnefnd um málefni aldraðra og að félags- og tryggingamálaráðherra skipi formann. Fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður sem fyrr varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu.

Hafa barist fyrir tilfærslu á verkefnum

Helgi Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að sambandið hafi lengi barist fyrir því að yfirstjórn öldrungarmála og málefni Framkvæmdasjóðs verði flutt til félagsmálaráðuneytisins. Sömuleiðis að mestöll starfsemi Tryggingastofnunar yrði færð undir sama ráðuneyti. „Við höfum einnig barist fyrir því að samþætting heimahjúkrunar og þjónustu við aldraða verði í höndum eins aðila," segir Helgi og bendir á að nú sinni bæði ríki og sveitarfélög þessum málum. Þetta sé þó skref í rétta átt.

Helgi segir að landssambandið hafi fundað með Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um breytingarnar á málefnum aldraðra og að aldraðir bindi miklar vonir við hana enda hafi Jóhanna sýnt þessum málefnum mikinn áhuga. Þá segir Helgi einnig brýnt að gerðir verði þjónustusamningar við hjúkrunarheimili þar sem það komi skýrt fram hvaða þjónustu þau eigi að veita. Það sé nauðsynlegt svo að heimilin fái fjármagn í samræmi við þá þjónustu.

Aðspurður segir Helgi að landssambandið berjist nú helst fyrir því að grunnlífeyrir verði hækkaður. „Hann er núna um 25 þúsund krónur en hann ætti að vera í kringum 80 þúsund," segir Helgi. Barist sé fyrir því að allir fái slíkan grunnlífeyri án þess að það hafi áhrif á aðrar lífeyrisgreiðslur til aldraðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×